Minningarorð um Magnús Bjarna Blöndal.

  Magnús Bjarni lést á Huddinge sjúkrahúsinu í

Svíþjóð þann 7.September s.l.

Magnús er fæddur á Skagaströnd 12.Janúar 1959
og ólst hann þar upp.



Elsku Maggi minn, nú er búið að taka þig frá okkur.

Það er ekki hægt að ímynda sér lífið án þín Maggi minn þvílíkur gleðigjafi varstu alltaf og útgeislunin frá þér eftir því,fólki var farið að þykja vænt um þig eftir að hafa hitt þig tvisvar þrisvar sinnum og urðu svo góðir vinir þínir upp frá því.

Það er svo óskaplega sárt að geta ekki séð þig eða heyrt meir,söknuðurinn er svo mikill,þetta er svo óraunverulegt að þú skulir ekki vera hérna lengur að gantast við okkur eða segja okkur einhverja skemmtilega og hnyttna sögu eins og þú varst svo þekktur fyrir.

Það var svo gaman hjá okkur á kántrýhátíðinni í fyrra þegar þú hittir Omma vin þinn og þið voruð  að rifja upp gamlar endurminningar frá Skagaströnd og víðar,við hin vorum bókstaflega í krampakasti meira og minna allan þann yndislega dag og þú varst upp á þitt besta,að segja okkur sögur og herma eftir einhverjum kallinum eða kellingunni,svona varstu alltaf með glensið í fyrirrúmi og með þennan hárfína húmor sem er ekki á hverju strái,meira að segja eftir að þú veiktist þá var spaugið á vörum þínum þegar það var ljóst að þú færir til Svíþjóðar í meðferðina; “maður kemst þá að minnsta kosti í utanlandsferð” sagðir þú en þetta var fyrsta skipti sem þú fórst út.

Og öll þorrablótin og skemmtanirnar þar sem þú komst fram og slóst iðulega í gegn þar sem smáatriðin skiptu máli í eftirhermunum.

Fjöllin,vötnin og náttúran í öllu sínu veldi var þitt annað heimili, þú varst svo mikið náttúrubarn og hestarnir voru þínir bestu vinir. Með þeim áttirðu góðar stundir þegar þú fórst í útreiðatúr eða að temja þá en þar varst þú á heimavelli sem allir vissu og þú gast þér gott orð fyrir víða um land.

Það góða orð og að þú reyndist alltaf öllum vel,hjartahlýr góður og heiðarlegur drengur verður aldrei tekið hvorki af þér eða okkur sem þekktum þig elsku Maggi minn og hafðu ástarþakkir fyrir frá okkur öllum.

Þó að ég hafi ekki verið í hestamennskunni þá fylgdist ég alltaf með hvað þú varst að gera,þú sagðir mér alltaf hvað þú ætlaðist fyrir og ég var alltaf stoltur af þér, því ég sá og heyrði að þú varst fagmaður fram í fingurgóma og vissir alveg hvað þú varst að gera og ekki síst þegar þú komst heim af mótunum með viðurkenningar og verðlaunin þá var gaman.

Þú varst svo fjölhæfur,þú teiknaðir,smíðaðir,málaðir,spilaðir á hljóðfæri ég man þegar við skiptumst á að spila á skemmtarann á Suðurveginum, okkur þótti svo gaman að spila gömlu góðu íslensku lögin og svo Fats Domino,Creadence Clearwater og fleiri góða. Og svo keypirðu þér spánnýja og fallega harmóníku og fórst til tónlistarkennara,komst svo til okkar seinna með nikkuna í farteskinu og tókst lagið fyrir okkur.

Þú þurftir ekkert endilega nótur til þess að spila eftir,þú hafðir svo gott tóneyra,ég hvatti þig til að hlusta vel á  laglínuna og þú keyptir þér svo diska með gömlu harmóníkumeisturunum til þess að æfa þig eftir.

Svo fórstu að heimsækja nikkukallana á Skagaströnd,Bigga Árna,Viggó og Kidda Hjartar til þess að læra frekar af þeim,þú varst alveg ákveðinn í að ná góðum tökum á nikkunni eins og allt benti til.

Svo komstu færandi hendi með fallegu kertastjakana smíðaða úr hestaskeifum,gafst okkur öllum sinn hvorn stjakann en enginn samt eins,þú fékkst svo margar góðar hugmyndir.

Og rugguhestana sem þú smíðaðir sem voru svo fínir og vandaðir og  alltof fáir.

Það lék allt í höndunum á þér hvort sem það var stórt eða smátt þú hafðir tilfinninguna fyrir því öllu.

Þú barðist eins og ljón við veikindin og erfiðleikana allan tímann og varst algjör hetja enda varstu alltaf baráttumaður og hraustmenni og ég trúði alltaf að þú myndir rífa þig upp úr veikindunum jafnvel þótt útlitið væri ekki gott.

Þegar ég sit hérna og skrifa þessi orð með tárin í augunum þá heiti ég því  Maggi að ég skal hjálpa henni Sóley dóttir þinni og frænku minni, sem elskar þig svo mikið,þegar hún fer í framhaldsskólann og aðstoða hana eins og ég hef krafta til.

Þú áttir ekki þetta skilið að þurfa að ganga í gegnum þessar þjáningar allar og erfiðleika og vera svo tekinn burt frá okkur.

Því vona ég að núna sértu á friðsælum og björtum stað þar sem þú hittir alla gömlu vini þína frá Skagaströnd og að þú þjáist ekki lengur og að þú takir svo á móti okkur þegar við komum til þín en þú ert alltaf í hjarta okkar og huga alla tíð elsku Maggi minn.

Þakka þér fyrir að vera stóri og sterki bróðir minn.

Þakka þér fyrir öll heilræðin og ráðleggingarnar sem ég gleymi aldrei.

Þakka þér fyrir alla brandarana og skemmtilegu sögurnar sem þú sagðir okkur.

Þakka þér fyrir alla hlýjuna og  góðmennskuna og allar skemmtilegu stundirnar.

Ég mun aldrei gleyma þér meðan ég dreg andann.

Heimurinn er fátækari án þín.

 Stjáni bróðir.

  Til baka.